Vindatlas Veðurstofu Íslands birtir upplýsingar um reiknað vindafar fyrir 12.462 hnútpunkta yfir Íslandi.
Með því að smella á staðsetningu á kortinu sýnir vindatlasinn næsta reiknaða hnútpunkt og upplýsingar um reiknað vindafar í honum og næsta umhverfi.
Hægt er að skoða vindafar eftir yfirborðshrýfi, hæð og vindátt með því að draga til sleðana efst til hægri og smella á vindáttargeira á vindrósinni.
Sækja má upplýsingarnar á prentanlegu formi, ásamt hrágagnaskrá á textaformi með því að smella á skráartáknin hægra megin.
Hrýfi er mælikvarði á yfirborðsgerð, þannig að hafsvæði og vötn eru skilgreind með yfirborðshrýfi 0,0 m en lægsti flokkurinn yfir landi hefur yfirborðshrýfið 0,03 m.
Nánari upplýsingar um vind og vindorku má finna á heimasíðu Veðurstofunnar, Vindur og vindorka
Hvort sem skoðað er alhæft vindafar eða niðurstöður vindmælinga á veðurstöð, má yfirleitt lýsa dreifingu vindhraða með svokallaðri Weibull dreifingu. Þessi dreifing er háð tveimur stikum, A sem lýsir tíðniútslagi dreifingarinnar (og hefur einingar vindhraða) og einingarlausi stikinn k sem lýsir lögun dreifingarinnar (og með því hversu mikill munur er á mesta vindi og meðalvindi).
Svokölluð vindrós er notuð til að lýsa vindafari í hnútpunkti á sjónrænan hátt. Hver geiri vindrósarinnar samsvarar tíðni vinds úr þeirri átt, þ.e. vindurinn blæs inn að miðju vindrósarinnar. Töluleg stærð valins vindáttageira er birt í miðju vindrósarinnar.
Athugið að vindrósin er aðeins reiknuð fyrir lægsta hæðarflokkinn, 10 m
Hægt er að hlaða niður textaskrá (með .lib endingu) fyrir hvern hnútpunkt í möskva reikninetsins. Í þessum skrám eru Weibull stikar fyrir 12 vindáttir, 5 mismunandi hæðir frá yfirborði og 5 mismunandi hrýfisflokka.
Textaskrárnar er hægt að opna í hvaða ritli sem er og teikna upp með því teikniforriti sem notandi þekkir best.
Fyrir mat á vindorku á tilteknu svæði þarf að gera útreikninga með jaðarlagslíkani, t.d. WAsP, WindPro eða Windfarmer, þar sem tekið er tillit til m.a. hæðar yfir sjávarmáli, yfirborðsgerðar og hindrana í landslagi. Þessháttar útreikningar kallast niðurkvörðun. Þeir gefa nákvæmara mat á staðbundnu vindafari og eru þess vegna mikilvægir fyrir vindorkumat og alla undirbúningsvinnu. Í þeim tilvikum þarf að kaupa vindorkulíkan.
Þeir sem þekkja lítið til jaðarlagsforrita ættu að biðja vindorkusérfræðinga um aðstoð við útreikninga og túlkun niðurstaða.
Athugið að jaðarlagslíkön eru ekki gerð fyrir útreikninga við brött fjöll. Því má gera ráð fyrir að nálægt fjöllum sé nokkur skekkja í útreikningum.
Eins eru svæði á Íslandi þar sem gera má ráð fyrir mjög litlu yfirborðshrýfi, þ.e. minna en 0,03 m, og því er ástæða til að áætla að á þeim svæðum vanmeti vindatlasinn vindhraða.
Einnig ber að hafa í huga að þó að íslenski vindatlasinn gefi vissulega góða mynd af vindafari á Íslandi í reiknineti með 3 km möskvastærð þá kemur hann ekki í stað hefðbundinna vindmælinga.